Innlent

Grill 66 karla | HK og Valur-U með sigra

Þrír leikir fóru fram í Grill 66 deild karla í kvöld.
Í Kópavogi tóku HK á móti botnliðið deildarinnar, Hvíta Riddaranum. Hvíti Riddarinn fékk „liðstyrk“ um áramót þegar Davíð Svansson gekk aftur til félagsins. Davíð leikur samt ekki í marki, en hann leikur í stöðu leikstjórnanda með liðinu.

Hvíti Riddarinn olli HK vandræðum framan af leik, en HK voru sex mörkum yfir í hálfleik 15 – 9. HK juku örlítið forskotið sitt í síðari hálfleik og unnu öruggan sigur 29 – 20. Kristófer Dagur Sigurðsson heldur áfram frábæru gengi sínu á tímabilinu en hann skoraði 10 mörk í kvöld. Kristófer er alls kominn með 101 mark í 12 leikjum og er lang markahæstur í deildinni. Hjá Hvíta skoruðu þeir Ófeigur Ragnarsson, Níels Reynisson og títt nefndur Davíð Svansson allir 4 mörk.

HK fór með sigrinum tímabundið upp í 3. sæti deildarinnar með 16 stig, en Haukar-U geta aftur farið upp fyrir þá á morgun með sigri. Ljóst er að strembið verkefnið bíður Hauka-U en þeir mæta toppliði KA á morgun.

Á Hlíðarenda mættust Valur-U og Stjarnan-U. Mjög lítið var skorað í fyrri hálfleik og staðan að honum loknum var 5 – 4 sem er svona svipað og var skorað í gamla daga. Liðin hertu aðeins á markaskorun í síðari hálfleik, Valur skoraði 15 mörk en Stjarnan aðeins 13 og sigraði Valur-U því leikinn 20 – 17.

Alexander Jón Másson og Viktor Andri Jónsson skoruðu báðir 4 mörk fyrir Val, en hjá Stjörnunni skoraði Guðmundur Sigurður Guðmundsson 4 mörk.

Valur-U er í 6. sæti með 12 stig en Stjarnan-U í 8. sæti með 8 stig.

Skýrsla úr leik ÍBV-U og Þróttar hefur ekki borist til Fríkastsins.

Ummæli