Olís deild karla

Olís deildin

Olís deild karla | Selfoss stal þriðja sætinu af Val

Valur tók á móti Selfoss á Hlíðarenda í kvöld. Fyrir leikinn var Valur í þriðja sæti deildarinnar með 21 stig en Selfoss sat í því fjórða með 20 stig. Í fyrri viðureign liðanna fóru Valsmenn nokkuð auðveldlega með Selfyssingana en hinsvegar var von á hörku leik í kvöld. Það vakti athygli að sjá Snorra Stein mættann á gólfið í upphitun en hann komst á blað í leiknum.

Leikurinn var allur í járnum í upphafi en rétt fyrir lok fyrri hálfleiks áttu Valsmenn góðan sprett sem tryggði þeim þriggja marka forskot í hálfleik, staðan 15 – 12. Þá átti Sigurður Ingiberg Ólafsson góðan leik í marki Valsmanna og lagði grunn að forskoti þeirra. Það tók Selfyssinga hinsvegar um það bil 15 mínútur að jafna leikinn og staðan þá orðin 24 – 24 og stundarfjórðungur eftir af leiknum.

Þá var komið að Sölva Ólafssyni, markmanni Selfyssinga, að taka leikinn í sínar hendur og náðu Selfyssingar góðum kafla þar sem þeir komust yfir í fyrsta skipti í leiknum síðan á upphafsmínútum hans. Þeir héldu forskotinu til leiksloka og skoruðu síðustu þrjú mörk leiksins sem tryggði þeim sigur, lokaúrslit 29 – 34.

Elvar Örn Jónsson var markahæstur Selfyssinga með 11 mörk en hjá Valsmönnum skoraði Anton Rúnarsson mest eða 8 mörk. Þá var Sveinn Aron Sveinsson kominn aftur í hóp Vals eftir að hafa skipt yfir frá Aftureldingu á dögunum og hann átti fínan leik í dag og gerði 4 mörk.

Með sigrinum tókst Selfoss að komast upp fyrir Valsmenn á töflunni og sitja nú í þriðja sætinu með 22 stig.

 

 

Ummæli