EM karla 2018

EM/HM

SPÁNVERJAR ERU EVRÓPUMEISTARAR

Spánverjum tókst í kvöld að verða Evrópumeistarar í fyrsta skipti í sögunni þegar þeir lögðu Svíþjóð í æsispennandi leik í Zagreb höllinni í Króatíu. Þetta var einnig í fyrsta sinn í sögunni sem Svíþjóð tapar úrslitaleik á Evrópumótinu en þeir hafa unnið mótið fjórum sinnum.

Í fyrri hálfleik voru það Svíar sem höfðu yfirhöndina og frábær markvarsla frá Mikael Appelgren gerði það að verkum að Svíar höfðu yfirhöndina í fyrri hálfleik. Þegar flautað var til hálfleiks leiddu Svíar 12 – 14.

Í síðari hálfleik kom hins vegar gamla brýnið Arpad Sterbik í markið hjá Spánverjum og þá hrökk allt í baklás hjá Svíum, þeir einfaldlega komu boltanum ekki fram hjá Sterbik ásamt því að tæknimistök og tapaðir boltar einkenndu sóknarleik þeirra. Svíar fóru einnig að láta dómgæsluna fara í taugarnar á sér en dómgæslan hefur alls ekki verið góð á þessu móti. Spánverjar hins vegar léku við hvern sinn fingur og áttu frábæran seinni hálfleik. Svíar réðu ekkert við 5-1 vörn spænska liðsins og Raul Entrerríos var frábær þar fyrir framan. Spánverjar gerðu ekki sömu mistök og fyrir tveimur árum gegn Þýskalandi og lönduðu öruggum sex marka sigri 29 – 23.

Sterbik var stærsta ástæða þess að Spánn vann leikinn en hann var upphaflega ekki í hópnum þar sem hann lagði skóna á hilluna eftir síðasta mót. Hann svaraði hinsvegar kalli þjálfarans þegar meiðsli herjuðu á spænska liðið og var frábær í undanúrslitunum og enn betri í kvöld.

Jim Gottfredsson, besti maður Svía á mótinu, náði sér alls ekki á strik í kvöld né heldur Simon Jeppsson. Svíar voru alls ekki líkir sjálfum sér í seinni hálfleik og virtust algjörlega ráðþrota.

Kristján Andrésson og sænska landsliðið getur samt gengið stolt frá mótinu en það verður samt að segjast að það er frekar skrýtið að þeir leika til úrslita eftir að hafa tapað jafn mörgum leikjum og þeir unnu á mótinu.


 

Ummæli